Mæðgnaferð til Costa Blanca - 5 göngudagar (2 skór)

Fátt er eins ómetanlegt og gott samband móður og dóttur. Skotganga ætlar að bjóða upp á einstaka gönguferð til Costa Blanca sem miðar að því að styrkja mæðgnaböndin. Ömmur, mömmur, dætur og dótturdætur eru hvattar til þess að skoða þessa skemmtilegu ferð og skapa minningar um samveru sem aldrei gleymast.

 

 

Föstudagurinn 13. apríl: Koma

Komið til Alicante og þaðan er ekið á Albir Playa Hotel and Spa og tekur ferðalagið um klukkutíma.

 

 

Laugardagurinn 14. apríl: El Faro

Um morguninn þá gerum við okkur klár fyrir fyrsta göngudaginn sem verður í léttari kantinum. Smá upphitun fyrir næstu daga og munum við ganga frá hóteli að El Faro vitanum í Albir. Þaðan er gríðarlega fallegt útsýni hvert sem litið er og hægt að sjá út til Calpe og upp í Bernia fjöllin þar sem við munum ganga næstu daga.

Ganga: 10 km

 

 

Sunnudagurinn 15. apríl: Bernia Hike

Þessi fallega ganga byrjar í um 500 m hæð og er gengið á fjölbreyttum göngustígum, stórum steinum og lausagrjóti og er útsýnið frá göngunni alveg stórkostlegt. Til vinstri má sjá norður strönd Costa Blanca og upp til Valencia og til hægri yfir Altea, Albir og Benidorm. Úti við blasir Calpe kletturinn eða Penon d´lfach sem er nokkurskonar Gibraltar Alicante. Frábær dagleið með frábæru útsýni og endum við gönguna á smá hressingu áður en haldið er heim á leið.

 

Ganga: 11 km Hækkun/lækkun: 400 m

 

 

Mánudagurinn 16. apríl: Óvissuferð

Eftir staðgóðan morgunverð er lagt af stað með rútu út í óvissuna. Gengið er um einn af fegurstu dölum Costa Blanca. Þegar við komum til baka verður búið að taka frá aðstöðu í heilsulind hótelsins fyrir hópinn.

Ganga: 10 km Hækkun/lækkun: 400 m

 

 

Þriðjudagurinn 17. apríl: Frjáls Dagur

Tilvalið að skella sér í sólbað eða spa, fara á markaði og í verslanir fyrir þá sem vilja. Eins mælum við með að fara yfir til Altea, bæði að kvöldi sem degi en þar er að finna mikið af smáverslunum og skemmtilegum veitingastöðum.

 

 

Miðvikudagurinn 18. apríl: Olta Hike

Keyrt til Calpe, ca. 30 mínútur í keyrslu. Byrjað er að ganga upp að fjallinu og þar tökum við hring í kringum fjallið Olta. Frábært útsýni hvaðan sem litið er. Eftir gönguna ætlum við að koma við hjá vínbónda áður en haldið er heim á leið.  

 

Ganga: 10 km Hækkun: 400 m

 

 

Fimmtudagurinn 19. apríl: Guadalest & nágrenni

Dagurinn byrjar á ca. 40 mínútna keyrslu til Callosa, upphafstað göngu. Þar munum við ganga um einn af fallegu dölum Costa Blanca, framhjá Guadalest uppistöðulóninu og að litlum bæ sem kallast Beniarda. Eftir gönguna ökum við að Guadalest sem er eitt sérstæðasta fjallaþorp Spánar. Í þorpinu er frjáls tími og tilvalið að skoða sig um og kíkja í söfn. Á leiðinni til baka munum við heimsækja Alagar fossa sem er stórkostleg náttúruperla upp í fjöllunum fyrir ofan Altea. Þar gefst þeim kostur sem það vilja að fara þar inn og skoða fallega fossa og lindir og jafnvel finna sér litlar laugar til að synda í. 

Ganga: 10 km

 

 

Föstudagurinn 20. apríl: Heimferð

Frjáls dagur fram að brottför.

 

 

Verð: €965

 

Innifalið í verði ferðar:

Akstur til og frá flugvelli, ferðir til og frá upphafsstað göngu, gisting og morgunverður alla dagana, hádegisnesti á göngudögum (samloka, ávöxtur og orkustangir), kvöldverðir og vín og vatn með mat, heimsókn í vínbúgarð og aðgangur í Algar fossa. Íslensk fararstjórn alla daga.

Verð miðast við tvíbýli. Aukagjald fyrir eins manns herbergi €140.

 

ATH. Flug greiðist sérstaklega. Við eigum frátekin sæti hjá Prima Air (Heimsferðum) á 53.900 ISK. Hægt er að staðfesta flug hjá Hrönn Ægisdóttur í síma 595-1034 eftir 17. ágúst 2017.