Skotland - Suðureyjar

 

Við höfum verið að bjóða upp á spennandi ferð fyrir hópa um eyjarnar undan vesturströnd Skotlands (sem norrænir menn kölluðu Suðureyjar) og Hálönd Skotlands. Margir af fegurstu stöðum Bretlandseyja heimsóttir, við ferðumst um slóðir landnámskonunnar Auðar djúpugðu, kynnum okkur tengsl svæðisins við Ísland og stórbrotna sögu Hálandanna.Eyjarnar Mull, Iona, Skye, Eilean Donan, Harris & Lewis heimsóttar. Dýpkum þekkingu okkar af svæðinu með heimsókn í nokkra kastala og söfn - en umfram allt sköpum létta og skemmtilega stemmingu í hópnum og njótum annálaðar gestrisni vingjarnlegu frænda okkar Skota. 

 

Dagur 1: Koma

Flogið til Glasgow FI430  07:35 - 10:40.

Ekið til Luss, sem er lítill bær á bökkum hins rómaða Loch Lomond.Þar skoðum við okkur um og snæðum hádegisverð. Þaðan liggur leiðin út á vesturströndina, þar sem næsti áfangastaður er Inveraray, fallegur bær við Loch Fyne fjörðinn. Þar er m.a. að finna Inveraray kastala og 19. aldar fangelsi sem nú er vinælt safn. Loks er ekið áfram til Oban, þar sem gist verður næstu 2 nætur á Oban Caledonian Hotel.

 

Dagur 2: Mull & Iona

Siglum að morgni til eyjarinnar Mull. Ekið þvert yfir eyjuna til Fionnphort. Stutt ferjusigling þaðan yfir í eyjuna helgu - Iona. Fyrir 1.500 árum stofnaði írski munkurinn Columba þar klaustur og hóf að kristna Skota.Frjáls tími á eyjunni til að skoða sig um. Siglt og ekið til baka til Oban síðdegis.

 

Dagur 3: Glenfinnan, Eilean Donan & Skye

Ekið til Glenfinnan, Loch Shiel. Sögufrægur staður, þar sem Bonnie Prince Charlie safnaði herliði Jakobíta 1745 og hóf uppreisn sem hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir Skotland og þá sérstaklega Hálöndin. Ekki spillir að Glenfinnan þykir einn fallegasti staður Skotlands. Þaðan er ekið upp með Loch Lochy og snæddur hádegisverður.  Á leiðinni til Skye er stoppað við Eilean Donan kastala og hann skoðaður. Þaðan er stutt skeyrsla til Broadford á eyjunni Skye. Gist þar á Dunollie Hotel.

 

Dagur 4: Skye

Ökuferð um eyjuna Skye, sem er annáluð fyrir náttúrufegurð. Komið við í Talisker viskíverksmiðjunni, Dunvegan kastali skoðaður  og Sky Museum of Island Life heimsótt. Frjáls tími til að skoða sig um og snæða hádegisverð í Portree, stærstu borginni á eyjunni. Ökuferðin endar í Uig, á norðurhluta eyjarinnar. Þar er gist á Uig Hotel.

 

Dagur 5: Isle of Harris & Lewis

Siglt að morgni frá Uig, Skye til Tarbet á eyjunni Harris & Lewis. Ekið til Callanish þar sem við skoðum hinn heimsfræga steinahring sem var reistur af steinaldarmönnum fyrir 5.000 árum. Þaðan liggur leiðin til Víkursanda - en þar fundust fagurlega útskornir taflmenn sem taldir hafa verið smíðaðir í lok 12. aldar. Guðmundur G. Þórarinsson hefur sett fram þá kenningu að taflmennirnir hafi verið smíðaðir á Íslandi. Við kynnum okkur sögu þessa merka fornleifafundar, og komum við á Uig safninu. Síðan er ekið til Stornoway, þar sem gist er á Caladh Inn Hotel.

 

Dagur 6: Isle of Harris & Lewis, Inverness

Ekið um eyjuna Lewis um morguninn. Skoðum svarthúsið í Arnol, Carloway Broch (virki reist fyrir 1.500 árum) og Gearannan Blackhouse Village. Síðan ekið til Stornoway, þar sem snæddur er hádegisverður. Síðan er siglt til Ullapool og þaðan ekið til Inverness, höfuðborgar hálandanna. Þar er gist á Royal Highland Hotel.

 

Dagur 7: Inverness, Culloden, Loch Ness, Urquhart kastali og Fort William

Í Culloden var síðasti bardagi á breskri jörð háður 1746, þar sem her Jakobíta undir stjórn Bonnie Prince Charlie var gjörsigraður. Við heimsækjum sögusviðið, en í Culloden hefur verið opnað nýtt og glæsilegt safn. Þaðan liggur leiðin til Lock Ness, en þar heimsækjum við Urquhart kastala. Síðan er ekið til Fort William, þar sem gist er síðustu nóttina á Alexandra Hotel.

 

Dagur 8: Heimferð

Ekið til Glasgow flugvallar. Stoppað á leiðinni í Glen Coe dalnum fræga. 


Flug kl. 14:05 til Keflavíkur