Námskeið í heilsueflingu og hreyfingu, júní 2019

Kennsla og leiðsögn: Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og Inga Geirsdóttir hjá Skotgöngu.

Góður endir á skólaárinu, gott að komast úr streituumhverfinu og ná að endurstilla sig á jákvæðan hátt. Gefandi og nærandi bæði á sál og líkama. Andleg næring í bland við líkamlega áreynslu var góð fyrir hópinn. Í göngunum eftir hádegi dag hvern náði fólk að vinna úr og velta fyrir sér, því sem um var fjallað á námskeiðinu að morgni, bæði með eigin íhugun sem og í samræðum við samstarfsfólk. Námskeiðið tónar vel við Heilsueflandi grunnskóla þar sem áherslan er á andlega og líkamlega heilsu. Geðrækt er einn af stóru þáttum framtíðarinnar í grunnskólum. Námskeiðið, hugsunin og orðræðan mun nýtast okkur í öllum samskiptum við nemendur, foreldra og samstarfsfólk. Stjórnvöld eru að leggja áherslu á geðrækt í skólum og tónar námskeiðið vel við þá stefnu. Þjónandi forysta er stjórnunarstefna sem leggur áherslu á velferð og vellíðan starfsfólks. Námskeiðið byggir undir það og getur haft jákvæð áhrif á starfsþrek kennara og alls starfsfólks grunnskóla og þannig unnið gegn kulnun í starfi. Það komu fram margir hagnýtir punktar sem við munum nota til að fást við streitu í okkar daglega starfi og einkalífi. Námskeiðið var mjög gott til að styrkja starfsmannahópinn í samskiptum og efla jákvæð tegsl. Námskeiðið hentar öllu starfsfólki slólans vel bæði kennurum, stuðningsfulltrúum, skólaliðum, ritara, húsverði og stjórnendum. Námskeið eins og þetta hentar betur fyrir alla starfsmenn skólans en skólaheimsóknirnar þar sem allir starfsmenn geta nýtt sér það. Fagmennska Kristínar Lindu var fræðileg og hagnýt. Fararstjórn Ingu var lífleg og átakalaus. Hún var örugg og tók tillit til allra. Allir gátu tekið þátt á sínum forsendum. Inga hélt vel utan um hópinn.

Almenn ánægja með námskeiðið hjá öllum þáttakendum.

- Starfsfólk Oddeyrarskóla Akureyri

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér koma nokkrar umsagnir frá námskeiðinu hjá Kristínu Lindu á Albir í apríl 2019

"Falleg og fagað. Öll umgjörð til fyrirmyndar og utan um hald alveg með prýði. 25 stig af 25 mögulegum."

- Þorgerður Jóna Guðmundsdóttir

"Kristín Linda hefur reynslu sem gerir námskeiðið trúverðugt og gefandi. Samveran sem við konurnar áttum í frjálsum tíma styrkir mann enn frekar og eflir. Get aldrei fullþakkað mér að hafa drifið mig á þetta frábæra námskeið. Að geta rætt við aðrar konur með mikla reynslu um efni námskeiðsins í gönguferðum og samveru var mikilvægt og skemmtilegt."

- Þórný Hlynsdóttir

"Fræðandi, nytsamlegt og umfram allt skemmtilegt námskeið. Dásamlegur kennari með aragrúa af skemmtilegum dæmisögum, margar úr eigin lífi. Gæti vel hugsað mér að koma á framhaldsnámskeið."

- Hulda Björg Baldvinsdóttir

"Þetta er frábært, heilsubætandi líkamlega og andlega. Ég taldi mig sterka og glaða fyrir námskeiðið og fer heim enn glaðari og sterkari."

- Kristín Áslaug Guðmundsdóttir

“Everything the organisers are full of positive energy. "

- Arlette MMarban

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Elsku Inga, ferðirnar sem ég hef farið með þér hafa allar verið frábærar, góð fararstjórn, þú ávallt tilbúin að lagfæra hlutina ef á þarf að halda, alltaf góð stemning í hópnum sem skrifast á þig! Og þegar gleðigjafinn hún Helga Unnarsdóttir bættist við og var þér til aðstoðar þá er ekki hægt að gera hlutina betur. Kærar þakkir fyrir allt"

                                                                                                 - Guðrún Eygló Guðmundsdóttir

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér koma nokkrar umsagnir úr Ganga og sjálfrækt til Costa Blanca í október 2018

"Vel skipulögð og vönduð vika með öllu, Inga öruggur og hress fararstjóri. Námskeiðið alveg frábært, skemmtilegt og gefandi. Kristín Linda hefur sérstakan hæfileika til að létta andrúmsloftið og gera efnið skemmtilegt. Námsefnið mikilvægt og námsgögnin vönduð og munu nýtast mér áfram. Skipulagði skapaði góða stemningu í hópnum svo kynntumst við hver annarri í alvöru, frábært að eignast nýjar vinkonur."

"Stórkostlegt námskeiðið, stóðst allar væntingar, kemur til með að breyta framtíðinni." - Svava Lilja Magnúsdóttir

"Mjög skemmtilegt námskeið, Kristín Linda lifandi og frábær með alla framsetningu á áhugaverð efni. Gaman að vera nálægt þeim báðum henni og Ingu og þetta er besta blandan, námskeið, ganga og gaman saman, stelpur!"

"Námskeiðið hjá Kristínu Lindu sálfræðingi var algjör, AUGNOPNARI, sem ég mun tvímælalaust nýta mér áfram í lífinu." - Ásrún

"Bæði Inga og Kristín Linda eru frábærar konur og virkilega kunna sitt fag. Hlýjar og notalegar, glaðar og jákvæðar. Á vonandi eftir að njóta samvista við þær aftur." - Fríður Eggertsdóttir

"Ég áttaði mig virkilega á því að lífið er heillandi og spennandi verkefni, ekki vanabundin klisja. Umræðan um hamingjuna var mögnuð, best að brosa, hlæja og rækta sjálfan sig!"

“Ég mæli heilshugar með námskeiði eins og þessu og ferðinni allri sem var vel skipulögð og frábær. Nauðsyn fyrir okkur konur sem erum að drekkja okkur í vinnu og orðnar fastar í viðjum vanans. Ég kem aftur - ekki spurning!" - Sigurlaug Jónsdóttir

"Vel skipulögð ferð og alveg dásamlegt námskeið, mjög uppbyggjandi, þúsund þakkir." - Þóra Fríður Björnsdóttir

“Frábær vika sem nærði bæði líkama og sál. Virkilega þess virði að fara upp úr hjólförunum, njóta líðandi stundar og svífa á vit ævintýranna." - SMB

"Á námskeiðinu hjá Kristínu Lindu sá ég sjálfa mig í nýju ljósi og ákvað á nýjan hátt að standa með mér, setja inn gleðiblöðrur og skoða vel hvað ég vil hafa á mínum lífdiski."

“Öll vikan var vel skipulögð og þessvegna var samveran hjá okkur öllum svo gefandi. Ég fékk hnitmiðuð og nothæf verkefni í hendurnar á námskeiðinu sem munu virkilega nýtast mér."

“Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið er að taka þátt í ferðalagi Ingu og Kristínar Lindu. Ferðalagið hófst í Albír og stendur enn yfir. Fékk fullt af verkefnum til þess að auka hamingjuna og lífsgæði. Gaman að vera hluti af skemmtilegum hópi öflugra kvenna." - Eydís Þ. Indriðadóttir

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Hér koma nokkrar umsagnir úr Yoga og gönguferðinni til Costa Blanca 20.09- 28.09.2018

"Algjörlega frábær ferð í alla staði! Dásamlegt að byrja daginn á jóga í dagrenningu og fara svo upp í fjöllin í góðum félagsskap. Hlátur, gleði og gaman. Eftirminnilegasta augnablikið var þegar hópurinn gekk í þögn meðfram guðdómlega bláu vatni hjá Guadalest. Nær himnaríki kemst maður varla. Mæli eindregið með þessu!" - Salome Tynes

"Takk fyrir mig sannarlega eitthvað sem mætti endurtaka." - Ásdís Sverisdóttir

"Frábær ferð með flottum konum." - Björk Ingimundardóttir

"Yndisleg ferð, hver dagur spennandi og vel skipulagðir, jógað var punkturinn yfir I ið." - Halldóra Finnbjörnsdóttir

"Yndislegt að vera með ykkur og kynnast nýjum konum." - Sirrý Christiansen

"Þakka fyrir magnaða ferð, þvílik gleði fyrir sál og líkama mjög dýrmætt". - Guðrún Fríður Hansdóttir

"Þessi ganga toppaði allt i nátturfegurð og jogað var frábær blanda með göngunum." - Særós Tómasdóttir

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Við tengdamæður gengum með Ingu og Snorra hjá Skotgöngu, Great Glen Way í síðustu viku. Gengið er á sérstaklega fallegu svæði í skosku Hálöndunum í fjölbreyttu landslagi bæði í skóglendi og á hásléttu. Allur undirbúningur og skipulag ferðarinnar er til fyrirmyndar. Framkoma þeirra hjóna einkennist af hlýju og glaðværð. Fagmennska einkennir alla þeirra framgöngu og þau gæta þess að allir ferðafélagar fái notið sín. Snorri var með skemmtilega "fróðleiksmola" um það sem fyrir augu bar á hverjum degi. Við þökkum fyrir frábæra gönguferð og samveru. Við komum aftur!"

                                                                                                 - Anna Stefánsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Um miðjan júní vorum við með átta manna fjölskyldu í Skotlandi sem við aðstoðuðum við að panta gistingar, bílstjóra og skoðunarferðir með enskumælandi leiðsögumanni í Fort William.

"Þá er Skotlandsferðin að baki og allir alveg himinlifandi. Mér var falið það hlutverk að senda þér þakkarpóst fyrir frábærlega vel skipulagða ferð. Skipulagið stóðst alveg upp á tíu, bílstjórarnir stórfínir, hótel Alexandra eins og klippt úr Harry Potter sögu með öllum sínum ranghölum og eftirminnilegum karakterum meðal starfsfólks. Sannkallað ævintýrahótel. Skoðunarferðin til Mallaig, Loch Ness, Drumnadrochit og víðar voru allar mjög vel heppnaðar þótt ekki sæjum við skrímslið :) 

Edinborg var líka alveg geggjuð og íbúðin alveg stórfín. Við fórum í kastalann fræga. Örugglega mjög gaman, en þegar við vorum þarna var yfirgengilega margt fólk þannig að tíminn fór að mestu í biðraðir. Við heimsóttum líka Mary King´s Close sem var algjörlega mögnuð upplifun sem hiklaust er óhætt að mæla með. Bestu þakkir fyrir einstaklega vel skipulagða ferð og kærar kveðjur til Stevens bílstjóra sem fræddi okkur um flest það sem fyrir augu bar á okkar ferðum með honum :)

Kærar kveðjur fyrir hönd okkar áttmenningana" 

                                                                                                 - Hulda Sigurdís

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Við erum tvær úr Keflavík sem fréttum af gönguferð til Costa Brava með Skotgöngu 4.- 11. maí 2018. Við hreinlega vissum ekki útí hvað við værum að fara. Sendum inn fyrirspurn og fengum svar um leið með öllum þeim upplýsingum sem okkur vantaði, myndum og skipulagi. Við skelltum okkur í ferðina og má segja að þetta er ferð sem skilur eftir sig frábærar minningar. Strax á flugvellinum fann maður fyrir innilegheitunum. Vissulega var hópurinn fjölbreyttur og sumir sjóaðri en aðrir sem var gott því við byrjendurnir lærðum af þeim reyndari :) Alla ferðina var engin pressa fyrir þá sem ekki treystu sér alla dagana heldur fannst manni maður vera á sínum forsendum og var Inga og Snorri alltaf með lausn á styttri ferð eða að mæta hinum í hópnum þegar gangan var hálfnuð. Hópurinn borðaði alltaf saman kvöldmat sem gerði það að verkum að hópurinn varð samrýndari :)

Í stuttum orðum þá er þessi ferð vel skipulögð með frábærum fararstjórum um framandi slóðir, auk innlendum guide (Boris) sem fyllti okkur af upplýsingum 500 ár aftur í tímann og mikilvægi ræktunar, ýmissa jurta, blóma og trjáa auk fuglahljóða. Upplýsinga um Catalóníu, list og sögu. Geggjaðar gönguleiðir, fín hótel, gleði og kátína. Ekki má gleyma að hópurinn náði virkilega vel saman og við ungu og óreyndari lærðum af þeim eldri og reyndari göngugörpum :)

Við báðar erum himinlifandi eftir þessa ferð og erum farnar að huga að þeirri næstu og munum við 100% fara aftur með Skotgöngu.

Kæra Inga og Snorri takk fyrir okkur, sjáumst fljótlega aftur." 

                                                                                                 - Auður og Kolla, Keflavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Dagana 13.- 20. apríl 2018 fórum ég og yngri dóttir mín með Ingu og Möggu hjá Skotgöngu í ógleymanlega mæðgnagönguferð á Costa Blanca. Ferðin var allt í senn vel skipulögð, mjög fjölbreytt, einstaklega vel undirbúin í alla staði og hæfileg blanda af áreynslu og ánægju. Að Ingu og Möggu virðist laðast sérstaklega ljúft og skemmtilegt fólk og ferðafélagarnir voru því alveg einstaklega yndislegir og þrátt fyrir að samverudagarnir væru aðeins 7 skapaðist í hópnum vinátta og mikill hlýhugur sem nær langt út fyrir samverudagana á Spáni. Þetta var í annað sinn sem ég ferðast með Skotgöngu en víst er að það verður alls ekki í síðasta sinn - ég er þegar farin að eiga í erfiðleikum með að velja á milli spennandi valkosta í þeim ferðum sem auglýstar hafa verið hjá þeim. Takk fyrir okkur!" 

                                                                                                 - Helga Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Fljótsdalshéraði

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

3.- 11. apríl 2018 kom stúlka frá Íslandi til Skotlands til að ganga West Highland Way á eigin vegum með aðstoð Skotgöngu.

 "Þetta var mjög krefjandi en samt svo ótrúlega gaman! Ég bjóst við að það yrði mun erfiðara að vera ein en það reyndist bara vera mun auðveldara en ég bjóst við og er ég mjög fegin að ég fór í þessa ferð ein. Þessi ferð var ekkert annað en snilld! Landslagið alveg ótrúlega fallegt og rigningin hafði alveg sinn sjarma. Þeir skotar sem ég talaði við voru alveg ótrúlega vingjarnlegir og skemmtilegir. Ásamt þeim sem ég kynntist frá öðrum löndum. Það að fara einn í svona ferð gefur manni svo mikið tækifæri á að kynnast fólki frá öðrum löndum. Ég vil bara þakka ykkur æðislega fyrir að plana þessa æðislegu ferð fyrir mig! Þetta er eitthvað sem ég mun alltaf hafa dásamlegar minningar af." 

                                                                                                 - Rakel Brá Siggeirsdóttir, Þórshöfn

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Hef farið í nokkrar göngur með Skotgöngu. Get hiklaust mælt með þeim. Allt skipulag til fyrirmyndar. Fallegar gönguleiðir valdar á hverjum stað. Svo skemmir ekki lífsgleðin og dásemdar hressleikinn sem geislar af Ingu fararstjóra fyrir upplifuninni. Hlakka mikið til næstu ferðar með Skotgöngu." 

                                                                                                 - Guðrún Haraldsdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Við vorum 9 vinkonur sem köllum okkur Spírurnar sem að skelltum okkur í Skotgöngu til Costa Blanca. Skipulagningin og gönguleiðirnar fóru langt fram úr okkar væntingum. Og að kynnast heilum hóp af konum og mynda vinskap við þær er ómetanlegt. Hótelið svo sannarlega stóð undir sínum væntingum, fararstjórarnir kunna sitt fag upp á 10. Aldrei dauð stund og svo mikið hlegið að sennilega eru magavöðvarnir komnir í sitt besta form sem þeir geta verið í. Gönguleiðirnar hentuðu okkur mjög vel, alls ekki erfiðar en samt alltaf ný áskorun á hverjum degi sem okkur fannst gott. Þetta combo - ganga, sól og sjór, nýr vinskapur og lifa lífinu lifandi er eitthvað sem er til að lifa eftir. Takk Inga, takk Anna. Þangað til í næstu ferð, takk fyrir okkur." 

                                                                                                 - Spírurnar

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Ég og 13 ára dóttir mín fórum með Skotgöngu í ferð í sumar 2017 og gengum the Great Glen Way. Við vorum mjög ánægðar með ferðina, félagsskapinn (þekktum engan), fararstjórn og alla umgjörð. Það var svo vel séð um mann og góð stemning í hópnum. Núna vorum við að ræða sumarfrí næsta árs og stúlkan mín spyr hvort við getum ekki gert eitthvað jafn skemmtilegt og í fyrra. Takk kærlega fyrir okkur, og vonandi sjáumst við fljótlega í annarri gönguferð!" 

                                                                                                 - Jenný Ingudóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Upplifun mín af Kvennaferð Skotgöngu á Costa Brava var mjög jákvæð. Skemmtileg og áhugaverð ferð með góðum ferðafélögum og góðri fararstjórn. Gaman að sjá leyndar perlur Spánar og mismunandi landslag. Vorum vel útbúin af góðu nesti og vel hugsað um okkur í alla staði. Við heimkomu langaði mig í aðra ferð." 

                                                                                                 - Guðrún Ingadóttir, Garðabær

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Kvennaferð Skotgöngu á Costa Blanca var ævintýri líkust. Tekið var vel á móti okkur í upphafi ferðar og haldið vel utanum okkur allan tímann. Gönguferðirnar voru vel skipulagðar og var farið á mjög fallega staði og ekki fjölfarna. Fræðslan, orðtökin og brandararnir voru stórskemmtilegir. Spakmæli dagsins voru góð og þjöppuðu hópnum saman. Ég mæli hiklaust með ferðum Skotgöngu og hlakka ég til næstu ferðar með þeim." 

                                                                                                 - Auður Ingólfsdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"West Highland Way 6 til 15 ágúst 2017. Ferðin var í alla staði frábær. Allur undirbúningur og skipulagning voru 100%. Hreinlega allt stóðst. Hópurinn var alveg próma, maturinn góður, nestið útbúið að natni, landslagið yndislegt og rúsínan í pylsuendanum var hinn snjalli og síglaði fararstjóri. Takk Inga og þið öll." 

                                                                                                 - Steinunn B. Geirdal, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"West Highland Way 6- 15 ágúst 2017. Endalaus fegurð og gleði með orkuríkum fararstjóra sem þekkir hvert fótmál leiðarinnar. Á skalanum 0-10 gef ég þessari ferð hiklaust einkuninna 10. Ný upplifun á hverjum degi sem endurnærir, bætir og kætir bæði líkama og sál. " 

                                                                                                 - Rannveig Traustadóttir, Kópavogur

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Nú erum við búin með allar göngur hjá Skotgöngu í Skotlandi! Nú vorum við að klára The Great Glen Way. Great Glen Way er 123 km löng gönguleið frá Fort William til Inverness. Gengið framhjá hæsta fjalli Bretlandseyja (Ben Nevis), fylgt stærsta jarðfræðilega misgengi Bretlands og meðfram vatni Bretlands (Loch Ness). Gangan endar í Inverness, sem er nyrsta borg Skotlands og höfuðborg Hálandanna. Mikið af göngunni er meðfram siglingarleiðinni Caledonian Canal, en smíði hennar þykir eitt mesta verkfræðilega afrek Viktoríutímans í Skotlandi. Gönguleiðin er yfirleitt auðveld yfirferðar, eftir göngu- og skógarstígum en það eru þó kaflar á leiðinni sem eru erfiðari og síðasta daginn er gengið 31 km. Við gengum þetta með frábæru fólki auk hjóna gönguvinum okkar Tómasi og Hrefnu. Í september er svo ganga á Spáni með þessum góðu vina hjónum á vegum Skotgöngu og ýmsar pælingar í gangi varðandi næsta sumar. Allt utanumhald var til fyrirmyndar eins og alltaf hjá þessum indælu hjónum Ingu og Snorra." 

                                                                                                 - Hrafnkell Gíslason & Ragnheiður Gísladóttir, Hafnarfjörður

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Í byrjun júlí aðstoðuðum við tvenn hjón sem komu til Skotlands til að ganga hluta af West Highland Way á eigin vegum. Þau gengu frá Milngavie til Kingshouse og gistu eina nótt í Edinborg áður en þau flugu heim frá Edinborgarflugvelli.

"Okkur fannst þetta algert ævintýri, fegurðin einstök og ykkar skipulag ótrúlega flott. Við áttum yndislega daga í Skotlandi og langar til að koma aftur og klára leiðina sem er ekki nema tvær dagleiðir. Tíminn að þessu sinni dugði okkur ekki til að skondrast alla leið. Allir voru mjög vinalegir hvert sem við komum. Bestu þakkir frá mér, Sigga, Gróu og Birgi."

                                                                                     - Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Samhentir & Vörumerking fóru í árshátíðarferð til Glasgow 9-12 mars og þegar skipuleggja þarf ferð með tæplega 100 manna hóp þá þarf maður aðstoð. Við leituðum því til Ingu í Skotgöngu og báðum hana að hjálpa okkur og ekki stóð á því. Inga aðstoðaði okkur við undirbúning og framkvæmd og kom meira að segja í heimsókn til okkar hér á klakann til að kynna fyrir okkur Glasgow og skoðunarferð sem hún skipulagði. Margir í hópnum fóru með Ingu í skoðunarferð til Edinborgar og nágrennis og var það hin mesta skemmtun enda Inga fagmaður fram í fingurgóma. Hún aðstoðaði okkur einnig við undirbúning árshátíðarinnar sem tókst frábærlega. Inga, takk kærlega fyrir okkur þú ert frábær."

                                                                                                 - F.h. Samvör starfsmannafélags, Pétur Ingason

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Frétti af Skotgöngu hjá nágranna mínum sem var búinn að panta sér ferð til Costa Blanca í göngu, mér fannst þetta mjög spennandi og ákvað að setja mig í samband við Ingu og skrá mig. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég hitti Ingu þá var eins og að hitta gamla vinkonu, einstök kona með dásamlega náveru. Ferðin sjálf var ævintýri líkast í góðra kvenna hópi, hver dagur hafði sinn sjarma og áskoranir í fallegu umhverfi sem var yndislegt að upplifa. Ég mæli klárlega með þessari ferð, þetta er einstakt tækifæri til að upplifa og kynnast Spáni á nýjan hátt undir leiðsögn þaulkunnugra fararstjóra og tel ég að þessi ferð sé gerð til að henta öllum. Besta ákvörðun sem ég hef tekið lengi - takk elsku Inga."

                                                                                                 - Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Ég fór með móður minni og föður ásamt systkinum og mökum í göngu með Ingu 31. mars - 5. apríl 2016. Það verður að viðurkennast að ég vissi ekki hvað ég var að fara út í sem verður að teljast skemmtilegt enda væntingar engar, bara fara í að prófa eitthvað nýtt. Þetta er sennilega eitt það allra skemmtilegasta sem ég og fjölskyldan öll höfum gert. Þetta var í fyrsta sinn í langan tíma sem maður gat kúplað sig út, umhverfið og stemmningin færði manni ró og óendanlega hamingju.

Inga er framúrskarandi fararstjóri. Húmor, gleði og skipulag gerði ferðina að því sem hún var, ógleymanleg minning. Ég er sannfærður að fólk á öllum aldri hefði gaman að gönguferð með Ingu en ég mæli sérstaklega með þessari ferð fyrir barnafólk, þetta er besta hvíld sem ég hef allavega fengið. Gef þessari ferð fullt hús og rúmlega það."

                                                                                                 - Hafsteinn Steinsson, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"SAMGUS kom í fræðsluferð til Glasgow dagana 6.-9. september 2016. Það voru allir mjög glaðir og kátir, gott skipulag og vel að þessu staðið. Við lærðum margt og nutum þess bæði á þeim stöðum sem við heimsóttum sem og með Ingu í rútunni. Verð nú að hrósa sérstaklega fyrir bílstjórann sem lék á alls oddi með Ingu, alveg stórkostlegur. Get hiklaust mælt með Skotgöngu."

                                                                                                 - Berglind Ásgeirsdóttir, Garðyrkjufræðingur

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Þessi ferð á Costa Blanca er einhver sú besta sem ég hef farið í á þessum nótum, góð fararstjórn enda eru þær mæðgur Inga og Magga frábærir einstaklingar takk fyrir mig, mun fara með þeim aftur við fyrsta tækifæri."

                                                                                                   - Kristín Auðunsdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Takk innilega fyrir mig kæra Inga og Magga. Ég var virkilega ánægð með skvísuferðina og þið fáið 10 frá mér fyrir persónulega fararstjórn, umhyggju fyrir öllum þátttakendum, pottþétta skipulagningu og frábæran húmor. Sjáumst að ári liðnu í annarri kvennagönguferð. Mér finnst ég nú loksins vera orðin alvöru skvísa. Innilegar þakkir fyrir allt."

                                                                                                   - Alfa Kristjánsdóttir, Bókasafns- og upplýsingafræðingur

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Icepharma fór í árshátíðarferð til Edinborgar í mars 2016. Inga Geirsdóttir tók á móti okkur á flugvellinum í Glasgow og fylgdi okkur í rútu á hótelið okkar í Edinborg. Fjallaði hún um land og þjóð á leiðinni og var hópurinn mjög ánægður með allar þær upplýsingar sem og fróðleik er við fengum á þessari leið. Inga tók okkur svo í gönguferð um Edinborg og þvílík veisla fyrir fróðleiksfúsa einstaklinga. Góður göngutúr um borgina og fékk fólk borgina beint í æð. Inga aðstoðaði okkur einnig við að fá veislustjóra og sekkjapípuleikara er stóðust allar okkar væntingar og rúmlega það. Mæli hiklaust með Ingu ef þið eruð að fara til Skotlands."

                                                                                                   - Ingi Þór Ágústsson, Viðskiptastjóri Icepharma

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Nokkrar gersemdar Edinborgar

"Í árshátíðarferð starfsfólks Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til Edinborgar í september 2015, var ákveðið að setja skoðunarferð um borgina á dagskrá. Þegar spurst var fyrir um það mál hjá Icealandair, kom nafn Ingu hjá Skotgöngu upp og hún féllst fúslega á að verða við óskum hópsins. Við fórum fótgangandi með Ingu og Möggu dóttir hennar um gamla hluta borgarinnar þar sem þær fræddu okkur sögu hennar, sýndu okkur markverðustu staðina og deildu með okkur áhugaverðum og skemmtilegum sögum sem þeim tengjast. Í lokin fórum við í Whisky skoðunarferð þar sem spilað var á hin ýmsu skynfæri. Leiðsögn þeirra Ingu og Möggu var vel skipulögð og á léttum nótum. Á tiltölulega stuttum tíma tókst þeim að gefa okkur góða yfirsýn yfir þennan hluta borgarinnar og að benda á það sem gæti verið áhugavert að skoða nánar."

 

Dásamleg ganga um hluta af West Highland Way

"Ég ákvað að skoða möguleika á að bæta við nokkrum dögum við árshátíðarferðina og ganga hluta af WHW. Það reyndist vera áhugi hjá nokkrum samstarfsfélögum mínum og mökum þeirra að slást með í för. Sumir vildu ganga tvo daga (frá Milngavie í úthjaðri Glasgow til Rowardennan) og aðrir í fjóra daga (til Tyndrum). Þar sem ég hafði heyrt svo vel látið af Skotgöngu lá beinast við að leita til þeirra og var það góð ákvörðun. Til þess að koma öllu heim og saman fóru ótal tölvupóstar á milli okkar Ingu og hún á mikið hrós fyrir hvað hún svaraði alltaf fljótt og vel. Inga sá um að bóka allar gistingar fyrir okkur, flutning á farangri á milli staða og ferðir frá lokastað göngu og aftur til Glasgow. Á sumum stöðum, þar sem fátt var um veitingastaði, var hún jafnvel búin að láta taka frá borð fyrir hópinn. Þar sem við vorum ekki með formlegan fararstjóra lét Inga okkur í té gott kort af leiðinni, nánari upplýsingar um gönguleið hvers dags, hvar væri best að borða og annað sem að gagni mætti koma. Þetta reyndist okkur hið besta veganesti. Gangan sjálf fannst mér alveg dásamleg. Veðrið lék við okkur alla dagana þarna um mánaðarmótin sept. okt., engin fluga var að angra okkur, hitastigið var þæginlegt og dagleiðir fjölbreyttar og fallegar. Þegar fótamein gerðu vart við sig nýttu tvær úr hópnum sér þann möguleika á að hvíla sig á göngu þriðja daginn og fara þess í stað með bát og rútu á milli staða sem var lítið mál. Mér fannst það alger lúxus að geta farið í sturtu í lok hvers göngudags, að borða kjarngóðan kvöldmat á notalegum veitingastöðum og að sofa í uppábúnu rúmi. Nú vonast ég til að geta klárað WHW næsta haust og þá er ekki spurning um að leita aftur til þeirra hjá Skotgöngu."

                                                                                                                   - Sigríður Lóa Jónsdóttir

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Haustið 2015 hélt Sjóvá sína árshátíð í Edinborg. Þegar komið var að því að skipuleggja afþreyinguna þá var okkur bent á hana Ingu hjá Skotgöngu, því hún bara klikkar ekki. Og viti menn, hún skipulagði whisky ferð fyrir stóran hluta hópsins og allir svona líka ánægðir með þá ferð. Og hver var fararstjórinn, Inga en ekki hver?

Svo bættist það við að okkur vantaði veislustjóra og aftur var leitað til Ingu. Hún hafði strax samband við Skotan Bill sem tók það hlutverk að sér og sló hann svona líka rækilega í gegn. Að auki fengum við sekkjapípuleikara til að blása til veislunnar, smá skoskt touch. Takk fyrir okkur Inga og margir höfðu orð á því að þeir fari örugglega aftur til Skotlands - það er ekki lítið þér að þakka."

                                                                                                                   - Stewart Kristófer Hjaltalín, Hópstjóri SAP

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Sumarið 2014 fór ég í frábæra ferð með Skotgöngu. Það var alltaf verið að spá rigningu sem aldrei kom. Þetta var alveg frábært, gengið á milli staða og mjög vel skipulagt. Allir dagar voru mismunandi og alltaf eitthvað nýtt að sjá og öðruvísi. Við fengum smurt nesti og það smurði Inga og það var svo spennandi að sjá hvað við fengum, alltaf jafn gott. Ég get alveg mælt með þessari ferð.

Núna í október fór ég svo í göngu á Tenerife með henni Ingu. Þessi ganga var líka alveg frábær. Við vorum 14 í ferðinni og fórum misjafnar dagleiðir. Þarna er líka mjög gaman að ganga, mjög fallegt landslag og fallegur gróður, þannig að þarna var margt að sjá. Margt var líkt og á Íslandi. Bara allt miklu hærra og stærra. Öll þessi fallegu tré og blóm sem vantar hér hjá okkur. Nú fer ég bara að skoða hvaða ferð maður á að fara í næst og það verður eitthvað spennandi."

                                                                                                                   - Rúna Indriðadóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Komin heim eftir frábæra gönguferð um Tenerife þar sem Inga og Snorri voru fararstjórar ásamt Mario. Einnig var með í för ljósmyndarinn Julian sem tók um 1000 skemmtilegar myndir af okkur göngufólkinu í mismunandi aðstæðum í þessu fallega og fjölbreytta landslagi.

Gangan hófst í Norðurhluta eyjarinnar í Anga fjallagarðinum. Við fórum í gegnum fallegan skóg og nutum útsýnisins og fjölbreytileikans í gróðrinum. Í seinni hluta göngunnar fór hann að rigna þannig að við vorum vel blaut þegar við komum aftur í rútuna. 

Ganga tvö var í gegnum gilið Los Organos. Nafnið er dregið af basaltstólpum sem líkjast pípum í kirkjuorgeli sem er umleikið fallegum skógi. Ekki var nú laust við að suma langaði að kippa einni lítilli furu með sér heim til Íslands.

Þriðja gangan var um fjallgarðinn Arenas Negras. Í þessari göngu var gengið á mjúkum sandstígum innan um hraun steina og furuskóga. Fyrir okkur sem erum áhugasöm um gróður var þetta hrein paradís enda myndavélar vel nýttar til að mynda hinn fjölbreytta gróður.

Fjórða gangan var í þjóðgarðinum Canadas El Teide, þar sem gengið er í kringum hæsta fjall Spánar, El Teide. Þessi ganga var mjög fjölbreytt og landslag tók á sig nýja mynd við hvert spor þar sem klettar myndu hinar ýmsu kynjamyndir og ævintýri. 

Fimmta gangan hófst á því að heimsækja litla bæinn Masca sem er vel falinn á milli fjalla og hlíða. Síðan var gengið niður í gljúfrið Barranco de Masca en það er umkringt mörg hundruð metrum af háum klettaveggjum sem liggja eftir grýttum stíg sem leiðir mann niður að sjó. Þar gátum við sólað okkur góða stund meðan við biðum eftir bátnum sem sigldi með okkur til baka. Á siglingunni lentum við beint inn í höfrungatorfu sem gerði ferðina heim lengri og skemmtilegri fyrir vikið.

Gist var á tveimur stöðum, fyrst á norðurhluta eyjunnar í Puerto de la Cruz, en þar hófst ferðamannaiðnaðurinn fyrir 100 árum. Þar vorum við í fjórar nætur og leið okkur mjög vel í þessum notalega bæ. Þá var haldið til suðurhluta eyjunnar þar sem við dvöldum síðustu dagana á Zentral Centrum Playa de las Americas. 

Eftir viku dvöl á Tenerife kemur maður endurnærður heim, úthvíldur og hress. Þetta ótrúlega fjölbreytta, ævintýralega landslag þar sem hver dagur var með sín sérkenni, fjölbreytileika og fegurð er gott veganesti inn í veturinn. Ekki var nú síðra að baða sig í sólinni og byggja sig upp fyrir heimferð síðasta daginn í Los Cristianos en þá tók hópurinn sér frí frá göngunum.

Það var einstaklega gaman að ganga með Ingu, Snorra og frábæru strákunum þeirra Mario og Julian en þeir settu léttan og skemmtilegan blæ á þessa frábæru gönguferð á Tenerife. Takk fyrir góða ferð Inga og Snorri."  

                                                                                                                  - Hrefna Þórarinsdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Ég var í ferð með Ingu og Snorra á Tenerife í október og hef farið áður með þeim í skosku hálöndin. Metnaður og umhyggjusemi þeirra gerði ferðinar svo frábærar svo ekki sé talað um húmorinn og fjörið. Enginn kemst upp með annað en að njóta í botn. Ég bíð spennt eftir næstu ferð." 

                                                                                                                 - Ingibjörg Eggertsdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

"Við erum gönguhópurinn FETID og erum ættuð eða tengd bænum Hjálmastöðum í Laugardal. Á aldrinum 60-74 ára. Við áttum yndislega daga í Glasgow fyrripart ágústmánaðar 2015. Ferðin var skipulögð af Ingu Geirsdóttur hjá Skotgöngu. Flugum til Glasgow, áttum góðan fyrsta dag þar. Kynntum okkur hvar gott væri að versla og röltum um götur bæjarins. Gistum á fínu hóteli Jury´s Inn. Næsta dag var farið í rútuferð með Ingu. Fyrst var ekið um borgina, síðan norður héruð Skotlands, komið við í Glengoyne whisky verksmiðjunni, hún skoðuð og bragðað á eðal whisky þar. Síðan ekið um hið fagra Trossach hérað, snæddur hádegisverður á sveitakrá og komið við í Callander sem er fyrsti ferðamannastaðurinn í Skotlandi. Frábær ferð í alla staði og vel skipulögð. Fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á það sem Inga hafði að segja okkur. Síðan lá leið sumra til Edinborgar með lest, gengið um bæinn og margt skoðað. Aðrir versluðu og skoðuðu Glasgow betur. Má segja að þó þetta hafi ekki verið srkáð sem nein kraftgönguferð þá var mikið gengið. Svo var haldið heim á leið, allir sáttir og sælir með frábæra ferð."

                                                                                                                 - Steinn Halldórsson, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Gönguferðin var góð blanda af útiveru, skemmtun/fræðsu og afslöppun. Það má ekki síst þakka fararstjórunum Ingu og Möggu, sem að lögðu sig svo sannarlega fram um að allir fengju sem mest út úr ferðinni. Gengum um helming leiðarinnar nú í lok sumars og þá er afar freistandi að ganga seinnihlutann næsta sumar." 

                                                                                                                 - Björn og Guðrún, Hvammstangi

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Gangan sem ég fór með ykkur fór fram úr öllum mínum væntingum. Fyrirfram ætlaði ég að dekra við mig og ganga ekki alla daga en uppgötvaði fljótt að dekrið fólst í göngunni. Allir heimsins grænu tónar og allar mínar frumur urðu snortar af umhverfinu, útsýninu og félagsskapnum. Samlokurnar slógu líka í gegn og ég er strax farin að plana næstu göngu með ykkur. Takk takk!" 

                                                                                                                 - Inga María Friðriksdóttir, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Um Hvítasunnuhelgina var 26 manna starfsmannahópur Blindrafélagsins í helgarferð í Edinborg. Ferðin tókst einstaklega vel og voru allir virkilega ánægðir. Hversu vel ferðin heppnaðist var ekki síst að þakka frábærri þjónustu, ráðgjöf og fararstjórn Ingu hjá Skotagöngu. Kærar þakkir fyrir okkur. Nú er stefnan hjá okkur hjónum sett á WHW næsta sumar. Við pöntum að fá að fara fyrstu viku í júlí 2015." 

                                                                                                    - Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"KAPP ehf vill þakka þér kærlega fyrir móttökunar í Glasgow um síðustu helgi. Það eru allir í skýjunum með þína farastjórn og mjög svo skemmtilegan “sight seeing“ tour."

                                                                                                                 - Freyr Friðriksson, Reykjavík

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Suðureyjaferð 21/9- 28/9/2014

Í lok september 2014 fór ég í 40 manna hópferð um Hálönd Skotlands og Suðureyjar, undir leiðsögn og fararstjórn Snorra Guðmundssonar og Ingu Geirsdóttur hjá Skotgöngu/ Scot Walks. Farið var með rútu frá Glasgow upp hina fallegu vesturströnd Skotlands til ferjubæjarins Oban, þaðan haldið til Mull og eyjarinnar helgu, lona, þar sem dýrlingurinn Kólumikilli stofnaði klaustur fyrir þréttán öldum. Frá Mull eyju var farið með ferju til lands á ný, ekið um misgengisdalinn mikla, Great Glen, og frá Fort William norður um til Skye eyjar, þaðan haldið með ferju út til Isle of Lewis and Harris, stærstu eyjar Bretlands. Síðan var haldið aftur til lands með ferjunni til Ullapool, ekið skemmstu leið þaðan til höfuðstaðar Hálandanna, Inverness, og að lokum haldið aftur í gegnum Great Glen, meðfram vötnunum stórkostlegu, Loch Ness og Loch Oich, og síðan suður með Loch Lomond til Glasgow. Ég hef ferðast um þessar slóðir á eigin vegum áður en ekki fyrr komið til Isle of Lewis and Harris, sem hefur verið draumur minn í tuttugu ár, né heldur Mull og Iona. Það er skemmst frá því að segja að ferðin var mjög vel heppnuð í alla staði. Allt var þar jafnt til fyrirmyndar: fararstjórn Snorra og Ingu, skipulagið sem alltaf stóðst upp á punkt og prik, gististaðirnir, farkostirnir, félagsskapurinn, fróðleikurinn sem Snorri miðlaði okkur á leiðinni og síðast en ekki síst: Fallega Skotland. Erfitt er að tína út hvað hreif mig mest á þessu ferðalagi: Eilean Donan eða Urquhart kastalinn, fornar rústirnar eða klausturkirkjan mikla á Iona, náttúrufegurð Hálandanna, 19. aldar svarthús, hvít sandströndin og byggðarsafnið í Uig á Isle of Lewis, steinglagðar götur og mannlíf í Tobermory, Oban, Inverness og Stornoway, fjallsýnin í Fort William, fimm þúsund ára brautarsteinahringurinn á Callanish á Lewis. Allt lagðist þetta saman til þess að gera þetta að frábærri ferð. Takk fyrir mig.

                                                                                                                 - Vilborg Davíðsdóttir, Reykjavík

                                                                                                                  

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Í september 2014 komum við með hópi rótaryfélaga úr Rótaryklúbbnum Borgum til að ganga hluta af West Highland Way rúmlega 50 km. Það var alveg ljóst að þegar við lentum og Inga tók á móti okkur að allt var í öruggum höndum. Allt skipulag bæði hvað varðar fararstjórn, gistingu og nesti fyrir gönguna allt var til mikillar fyrirmyndar. Ekki skemmir fyrir að Inga og Magga dóttir hennar sem gekk með okkur líka, eru afar fróðar um staðhætti og menningu auk þess að vera léttar og skemmtilegar. Við ætlum að fara aftur á vegum Skotgöngu og ganga alla leið. Við mælum með Skotgöngu til að skipuleggja gönguferðir. Takk kærlega fyrir okkur og sjáumst á næsta ári. Rakel og Guðjón."

                                                                                                         - Guðjón Gunnarsson, Íslenskir Fjallaleiðsögumenn

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Fantaskemmtileg gönguferð í Skotlandi, lúxushálandaferð.

Það er bæði skemmtilegt og heilsusamlegt að ganga. Það er hægt að ganga á ýmiskonar mismunandi hátt. Hér á Fróni æða menn á Esjuna eða Vífilsfell, arka Laugaveginn, hringa Lónsöræfi eða klífa fjallaskörð á milli víka á Hornströndum. Úr mörgu að velja og margt að sjá í hinni stórkostlegu íslensku náttúru. En eiginlega fær maður ekki rétta sýn á okkar fagra land fyrr en maður hefur lagt land undir fót, minnst þess að heimskt er heimaalið barn og skráð sig í ferð hjá Ingu og Snorra um víðáttur Skotlands eða um slóðir enskra dýralækna og sjónvarpsstjarna.

Ekki það að íslenska náttúran líði fyrir samanburðinn. Þvert á móti, hún verður bara stórkostlegri en það kemur margt í staðinn sem maður upplifir ekki hér heima. Ég og betri helmingurinn vissum ekki hvað við vorum að ana út í þegar við skráðum okkur í West Highland Way ferðina alla. Okkur leist afar vel á þótt okkur þætti þetta nú ansi langur göngutúr. En þegar upp var staðið höfðum við arkað eina 160-170 km. Við vorum í upphafi afar spennt en það verður að segja hverja sögu einsog hún er, ekki bara stóð ferðin undir væntingum heldur miklu meira en það. Þar er við Ingu að sakast, skemmtiferðalanginn þann arna.

Lengdin var ekki vandamál. Ekki nokkurt. Fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er að það er mest gengið á breiðum og góðum stígum eða hermannavegum. Það er vel hægt að tölta þetta nánast alla leið án þess að horfa niður á tær sínar í hverju skrefi. Landslagið getur maður virt fyrir sér um leið og maður gengur, en það var nýjung fyrir okkur því ætli maður að njóta íslensku náttúrunnar er alveg nauðsynlegt að stoppa reglulega og líta upp, og líta til baka líka. Hitt, sem mestu skiptir þó, er þessi kona í bleiku, hún Inga. Við höfum kynnst góðum fararstjórum á Íslandi en Inga sló því annars ágæta fólki alveg við. Ekki bara tekst henni að halda hópi vel saman og skilur engan útundan, heldur er hún líka hrókur alls fagnaðar, ekki bara stundum heldur allar þessar 100 ensku mílur. Það er nokkuð afrek, sérstaklega í ljósi þess að hún gerir þetta oft á hverju sumri.

Auðvitað hjálpar líka að í hádeginu finnst venjulega hlýlegur skoskur bar með köldum á krana fyrir glaða göngumenn. Menn draga af sér gönguskóna, renna sér úr sokkunum og teyga kaldan mjöðinn. Já, um ferðirnar þeirra Ingu og Snorra má segja að þetta eru hreinar lúxusgönguferðir. Þótt Skotarnir hafi ekki þreyst á því að segja að, já næsta dag, myndum við nú ganga um svæði þar sem enginn væri og ekkert fyndist, það væri bara auðnin, þá var það nú sjaldan svo mikið að ekki mætti sjá einhver merki mannabyggðar, nú eða bara pöbb. Skotarnir með sýna auðn hafa sennielga aldrei komið á Hornstrandir, þar sem maður yrði að ganga drjúgt til að finna pöbbinn - eða bara alla leið.

En fjölbreytileikinn er lykilatriði, hafi maður gaman af gönguferðum, hann er ekki síður mikilvægur en góðir skór. Góðir fararstjórar eru auðvitað gulls ígildi. Í okkar ferð var hún Inga aldeilis virði þyngdar sinnar í gulli, og sennilega meira. Svona miðað við að eftir að hafa gengið West Highland Way oftar en nokkur maður í öllum heiminum þá eru nú aukakílóin ekki að þvælast fyrir. Sem er reyndar líka óskiljanlegt miðað við gæðin á nestinu sem hún reif sig upp fyrir allar aldir til að smyrja ofan í okkur göngufólkið til að renna niður með bjórnum í hádeginu. Og aldrei fékk maður það sama þessa sjö daga, Ó nei. Þar vantaði heldur ekki upp á fjölbreytileikann.

Svo síðustu dagana var bætt í enn betur þegar Snorri mætti á svæðið og gekk með okkur líka. Hann miðlaði okkur af sínum fróðleik á sinn hógværa hátt og mátti sjá að þau hjón væru sitt hvor hliðin af sama peningnum í því að skemmta okkur og fræða. Skipti engu máli hvort það var saga svæðisins eða undur þolinmæði Skota við bruggun maltviskísins.

Í lok ferðar mættu því sælir og ánægðir göngufélagar í Fort Williams, uppfullir af fróðleik og húmor þeirra hjóna. Sælir í mat og drykk og alveg mátulega þreyttir í fótunum. Enda hluti af lúxusnum að gista í gæða Bed&Breakfast gistihúsum og hótelum konunga.

Mælum með þessu."

                                                                                                                        - G.Pétur Matthíasson, Reykjavík

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Við hjónin höfum farið í gönguferð með þessu yndislega fólki þrjú ár í röð - og við hlökkum sannarlega til að fara í fleiri ferðir. Þau Inga Geirsdottir og Snorri Gudmundsson eru skemmtilegir ferðafélagar og allt sem lýtur að fararstjórn er alveg pottþétt. Ég hvet ykkur til að skoða heimasíðuna skotganga.co.uk og sjá hvað þau bjóða upp á."

                                                                                                                        - Ragnheiður Gísladóttir, Hafnarfirði

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi, fór til Edinborgar,  í mjög svo vel heppnaða ferð í október 2014. Flogið var til Glasgow með Icelandair, þar sem Inga og Snorri tóku á móti hópnum, en þau  sáu um skipulag og skoðunarferðir. Hluti hópsins gekk um hálöndin, með Ingu í nokkra daga áður en Edinborg var heimsótt, þar sem dvalið var í nokkra daga. Mjög mikil ánægja er  hjá hópnum,  með  virkilega skemmtilegar og fræðandi skoðunarferðir, s.s.  Sveitaferð og Wiský ferð  og .fl.  

Kærar þakkir til Ingu og Snorra , fyrir aldeilis frábæra ferð,  frá hópnum, sem  fór í ferðina."

                                                                                                                        - Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Að fara í West Highland Way göngu með Ingu og Snorra var frábært og við undirrituð mælum hiklaust með því. Við vorum líka mjög heppin með göngufélaga sem voru öll hress og skemmtileg og frábært að fá að kynnast þeim. Við vorum tuttugu sem gengum saman, fimmtán konur og fimm karlmenn og á öllum aldri. Við hjónin höfum nú þegar ákveðið að fara næsta sumar og ganga seinnihluta leiðarinnar. Náttúrufegurðin í Skosku hálöndunum er stórkostleg og skipulag og dagskrá ferðarinnar eins og best verður á kosið. Veðrið var eins og best verður á kosið alla dagana. Gangan var alls ekki erfið, það má segja að eftir hvern göngudag höfum við verið þægilega þreytt og þá var gott að koma í þessa fallegu litlu bæi þar sem gist var. Njóta þess að borða góðan mat sem allstaðar var til staðar og ekki má gleyma svalandi drykk sem alltaf var jafn langþráður eftir göngur dagsins. Það sem uppúr stendur er þó sennilega hversu hress, gestrisin, umburðalynd og einstaklega skemmtileg þau Inga og Snorri eru. Að kynnast þeim er mannbætandi og bara eintóm gleði. Bestu þakkir til ykkar elsku Inga og Snorri og við sjáumst sko örugglega aftur næsta sumar. "

                                                                                                                        - Gunnar og Anna Pála, Vopnafirði

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Við hjónin fórum í West Highland Way göngu með Ingu og Snorra í sumar. Það var þolimmæði og alúð sem einkenndi þennan hóp tuttugu göngumanna á fjögurra daga göngu í Skosku hálöndunum. Ákveðinn gönguhraði, ekki erfið ferð en góð vegalengd á hverjum degi. Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem skiluðu sér í gistingu á hverju kvöldi, og fararstjórinn hugsaði vel um hópinn sinn. Allt gekk upp, góð fararstjórn, gott veður og falleg gönguleið, og ekki má gleyma samferðafólkinu. Við mælum með þessum gönguferðum til Skotlands - þetta veitti okkur hjónum mikla ánægju og erum við ákveðin í að fara sem fyrst og klára seinni leiðina og áframhaldið sem er Great Glen Way.

Það má með sanni seigja að í ferðahópnum hjá Ingu og Snorra er enginn ókunnugur, aðeins vinir sem eiga eftir að hittast"

                                                                                                                        - Pétur og Guðrún, Selfossi

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja..... best að byrja bara á því að segja TAKK! Þessi ferð var stórkostleg frá upphafi til enda. Allt frá hlýju faðmlagi á flugvellinum við komu og þar til við kvöddumst á sunnudagskvöldinu. Það klikkaði ekkert! Skipulagið, gisting, matur, fararstjórnin, gleðin, landslagið, veðrið...... allt var þetta frábært og fullkomnaði langþráðan draum að ganga í Hálöndunum. Vonandi gefst mér færi á því að ganga með þér síðar og ekki væri verra að ná hópnum saman aftur. Get sagt með vissu að þetta er skemmtilegasti hópur sem ég hef gengið með!"

                                                                                                                        - Delía Kristín Howser, Hafnarfirði

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

 

"Vorum 11 skvísur sem skelltum okkur saman í sjö daga göngu(lúxus)ferð frá Milngavie til Fort William í júlí 2008. Ferðin var frábær á alla staði. Skemmst er frá því að segja að skipulagið hjá Ingu er 100% og hún meðhöndlaði okkur eins og ungabörn, sótti okkur á flugvöllinn og skilaði okkur þangað í lok ferðar. Langt síðan ég hef farið í ferðalag þar sem eins vel er hugsað fyrir öllum mínum þörfum. Þurfti nánast bara að sjá um varaglossið sjálf. Ekki skemmdi að Inga er þrælskemmtilegur ferðafélagi. Hlógum og flissuðum í sjö daga samfleytt. Gjeggjað að komast í sturtu og hrein rúm í lok hvers dags. Gönguleiðin er stórkostleg. Vorum alltaf að grípa andann á lofti yfir skoskri náttúrufegurð. Fjölbreytnin í landslagi mikil, skógar og auðn á víxl. Væri til í að fara aftur……strax í dag!“

                                                                                                                        - Ragnheiður Matthíasdóttir, Sauðárkróki

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

"Göngugarparnir fréttu af Ingu í Glasgow sem skipulegði gönguferðir um Skosku hálöndin. Það var haft samband við hana og úr varð ferð sem farin var í lok maí 2006 sem hún sá um. Það eina sem við þurftum að gera var að bóka flug, hún sá um rest. Gangan tók 1 viku, gengið ca. 20 km á dag, mislanga daga. Ferðin var algjört ævintýri, frábær skemmtun, vel skipulögð og reyndi passlega á. Inga féll vel inn í hópinn og var með okkur allan tímann, ef eitthvað kom upp á leysti hún það án þess að maður yrði var við það. Göngugarpar eru að fara í aðra göngu með Ingu sem hún sér um og hlakka ég mikið til."

                                                                                                                        - Þórey Sigurðardóttir, Reykjavík

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 

 

 

"Virkilega þægileg og skemmtileg gönguleið en þarf að sjálfsögðu visst úthald. Fyrst grænar sveitir þar sem við týndum brómberin við göngustígana og átum með bestu lyst. Svo leiðin framhjá Loch Lomond vatni með skemmtilegu og fjölbreytilegu skóglendi, sumt eins og beint úr Hringadróttinssögu. Síðan heiðar og fjalllendi sem ég var hrifnust af. Mér fannst alger himnasæla að ganga í hlýju veðri hvort sem var rigning eða heiður himinn, innan um notalegt fjalllendi Skotlands. Það kom þægilega á óvart að Skotarnir eru eins og þeim hefur verið lýst bæði skemmtilegir og gestrisnir."

                                                                                                                        - Kristín Sverrisdóttir, Reykjavík

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

"Ferðin með Ingu uppfyllti það sem ég sækist eftir í fríi. Hún reyndi á líkamlega, en þó hæfilega mikið. Umhverfið var allt í senn ævintýrlegt, fallegt og fjölbreytt og viðkomustaðirnir ólíkir og hver með sinn sjarma. Úr þessu varð hin besta ferð sem skilaði þreyttum en ánægðum ferðalöngum á leiðarenda. Svo má ekki gleyma því að Inga, með sína léttu lund og endalausu þolinmæði, átti stóran þátt í því að gera góða ferð enn betri.” 

                                                                                                                        - Anna Lóa Ólafsdóttir, Keflavík

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 

 

 

"Frábær ferð í alla staði. Einstök náttúrufegurð og ekki skemmir glettni og gestrisni Skotanna fyrir. Hefði ekki viljað missa af þessari ferð fyrir nokkurn hlut og á örugglega eftir að fara aftur. Svo má nú ekki gleyma að hrósa fararstjóranum, hreint frábær svo ekki sé meira sagt."

                                                                                                                        - Bjarnveig Jónasdóttir, Neskaupsstað

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

“Hvað stóð uppúr” hafa margir spurt eftir heimkomuna.

 

Satt best að segja veit ég það ekki. Allt stóð uppúr því allt var svo nýtt, skemmtilegt og fallegt. Móttökur, viðmót og viðkynning var engu lík, hvort heldur var innan gönguhópsins eða við fjölskyldu Ingu hálandahöfðinga, Möggu heimasætu og Snorra sem alltaf stóð bakvaktina.

 

Mér finnst ég standa ríkari eftir og þakka fyrir mig. Inga sótti okkur á flugvöll, bauð hópnum til hádegisverðar og gaf okkur greinagóða lýsingu á því hvernig best væri að eyða deginum fram að sannkallaðri grillveislu Snorra. Að borðhaldi loknu fengum við sýnikennslu í frumstæðri plásturskógerð sem mælt var með að við nýttum okkur til að fyrirbyggja óþægindi á hæl, tám og iljum. Þetta átti eftir að koma sér vel sem og allar plásturbirgðirnar sem Inga og Magga útdeildu.

 

Að morgni næsta dags var lagt af stað í fjögurra daga göngu inn á hálendið. Gangan sóttist vel um fagurgrænar hæðir og hóla í ólýsanlegri náttúrufegurð, þar sem skiptust á og fléttuðust saman engi, móar, runnar, trjágróður og burknar stundum meira en mannhæðaháir. Í fjarska blöstu við tignarleg fjöll og vötn. Einstaka bóndabæir kúrðu innan grængróðursins sem og nokkur smáþorp. Til að létta gönguna skiptumst við á gátum, bröndurum og sögum sem samið var um að mætti færa í stílinn, allt upp í 70%.

 

Þetta nýttum við okkur og urðu sögurnar meira krassandi eftir því sem hópurinn kynntist betur. Að sjálfsögðu sagði þreyta til sín þegar á göngu leið, annað hvot væri það, enda margar okkar nánast óvanar lengri göngu en út í bíl á leið til vinnu, en hvað um það, þá var bara að harka af sér. Við sungum óspart hvatningarsöngva sem bárust langar leiðir í hálendiskyrrðinni. ”Atti katti nóva” er mjög gott göngulag, sennilega það besta, en við sungum líka ”Göngum, göngum” og ”It´s a long way” sem aðrir ferðalangar kunnu og tóku undir með okkur svo dundi í fjöllunum. Inga sá til þess að hópurinn færi ekki of hratt yfir.

 

Á jöfnum og eðlilegum gönguhraða héldum við áfram, áðum af og til, virtum fyrir okkur útsýnið, bruddum þrúgusykur, Opal eða súkkulaðistöng og fengum okkur vatnssopa áður en lagt var í hann á ný. Um hádegisbil stoppuðum við oftast við hlýlegar sveitakrár, keyptum okkur dykk við hæfi og borðuðum nestisbitann okkar. Í lok göngudags biðu okkar ”í flestum tilfellum” notarleg herbergi, góð rúm og dásamleg sturta. Hvílík dásemd það var ásamt því að fá sér grátandi kaldan bjór og góðan kvöldverð.

 

Ég segi ”í flestum tilfellum”, því uppi á hálendi, inni í óbyggðum er ekki allstaðar lúxus að hafa. Því kynntumst við eina kvöldstund sem er bara gaman svona eftirá. Skemmtileg og skondin uppákoma fyrir ömmu að segja fjölskyldunni heima frá því þegar virðulegar frúr frá Íslandi gistu í svefnskála farfuglaheimilis, fjarri byggð, í brakandi járnkojum, sennilega afgangsgóssi frá stríðsárunum. Á kojubríkinni bættum við plástursskóna og smurðum stirða vöðva með bólgueyðandi og sterklyktandi kamfórukremi þar til sveið í augu og nef. Hrotukór og gormabrak hélt vöku fyrir sumum en aðrar sváfu.

 

Minni á að sögurnar okkar leyfa 70% frávik, þannig eru þær betri, en kannski ekki alveg sannar. Tyndrum var lokaáfanginn og í dagslok féllumst við í faðma. Stoltar, kátar göngukonur þökkuðu fyrir ógleymanlegar samverustundir sem hvergi bar skugga á, skiptust á hrósyrðum fyrir hreint ótrúlegan dugnað og þor. ”Sjáið tindinn, þarna fór ég” sagði skáldið og við líka. Já við vissum af okkur við ferðalok, vorum montnar eins og vera ber þegar marki er náð. Allar vorum við á því að þetta ævintýri vildum við upplifa aftur og það sem fyrst. Hjartans þakkir Inga, Magga, Snorri og mínar ágætu samferðarkonur. Það voru forrréttindi að kynnast ykkur og vera með ykkur þessa viku í lok júlímánaðar 2007."

                                                                                                                        - Arnbjörg Edda Guðbjörnsdóttir, Reykjavík

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------- 

 

"Við vinkonurnar ákváðum að skella okkur á fyrri part gönguleiðarinnar West Highland Way sl. sumar. Tekið var vel á móti okkur og á Inga fararstjóri hrós skilið fyrir góðan undirbúning og vel skipulagða ferð.

 

Ferðin sjálf var hreint ævintýri, hver dagur með sinn sjarma bæði í göngu og einstakri náttúrufegurð. Stemningin í ferðinni var frábær enda föngulegur kvennahópur þar á ferð ásamt frábærum fararstjóra með einstaklega skemmtilega nærveru. Stoltið var á sínum stað þegar á áfangastað var komið og líðanin ólýsanleg og hlökkum við vinkonurnar mikið til að koma aftur og takast á við seinni part ferðarinnar."

                                                                                                                        - Rakel og Fjóla, Keflavík