Viðtal

Ég hlakka alltaf til að heim­sækja borgina

Frá Irja Gröndal
19. febrúar 2023

Inga Geirs­dótt­ir hef­ur alla tíð haft áhuga á ferðalög­um og hreyf­ingu, en það var ekki fyrr en hún og eig­inmaður henn­ar, Snorri Guðmunds­son, fluttu er­lend­is árið 2005 sem hún smitaðist af göngu­bakt­erí­unni.

Hjón­in fluttu í lít­inn bæ ná­lægt Ed­in­borg í Skotlandi og urðu strax hug­fang­in af land­inu. Þau fóru fljót­lega að skipu­leggja göngu­ferðir um nátt­úru Skot­lands fyr­ir vini og ætt­ingja sem þróuðust með ár­un­um, en í dag eiga þau ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki sem þau reka ásamt dótt­ur sinni, Mar­gréti.

Á síðustu tæp­um tveim­ur ára­tug­um hef­ur Inga ferðast víðsveg­ar um heim­inn og gengið á ótrú­leg­um slóðum, allt frá því að sigla frá Singa­púr til Taí­lands yfir í krefj­andi göngu­ferðir um eld­fjalla­lands­lag á Nýja Sjálandi.

Hef­ur þú alltaf haft áhuga á ferðalög­um?

„Mín reynsla er að flest­ir hafa gam­an að því að ferðast og ég er þar eng­in und­an­tekn­in. Að upp­lifa eitt­hvað nýtt, koma á nýj­ar slóðir og kynn­ast nýju fólki gef­ur líf­inu lit. Veistu, ég held að ferðalög geti bætt okk­ur sem mann­eskj­ur, minnkað for­dóma og gert okk­ur víðsýnni.“

En úti­vist?

„Ég hef alltaf stundað fjöl­breytta hreyf­ingu, en þegar ég bjó á Íslandi þá fór ég mikið í golf, sund og rækt­ina. Það var hins veg­ar ekki fyrr en ég flutti út árið 2005 að göng­ur fóru að vera mitt aðal áhuga­mál og má því segja að ég sé í mínu drauma­starfi.

Einu sinni var fólk nú ekk­ert að ganga að óþörfu, enda marg­ir í erfiðis­vinnu. Nú vit­um við hins veg­ar að úti­vera og göng­ur eru mik­il­væg heilsu­bót. Það er mann­in­um eðli­legt að ganga svo rétt eins og það er eðli­legt fyr­ir fugla að fljúga, svo ég segi bara, um að gera – tök­um göngu.“

Hvernig ferðalög­um ert þú hrifn­ust af?

„Ég er mest hrif­in af ferðum sem eru blanda af úti­vist­ar- og skoðun­ar­ferðum. En síðan hef ég mikið verið að spá í að keyra um Evr­ópu, eins og maður gerði í „denn“ og jafn­vel vera ekki með nein plön held­ur láta dag­ana og um­hverfið ráðast að því hvar maður gist­ir hverju sinni og keyra í gegn­um nokk­ur lönd. Það yrði ör­ugg­lega bæði fróðlegt og gam­an.“

Áttu þér upp­á­halds­borg í Evr­ópu?

„Mín upp­á­halds­borg er Ed­in­borg. Borg­in er lít­il og þægi­leg, með fjöl­mörg­um fal­leg­um bygg­ing­um og sögu­fræðum stöðum. Ég hlakka alltaf til að heim­sækja borg­ina þó svo ég sé ekki í nema 30 mín­útna akst­urs­fjar­lægð frá Ed­in­borg, en þangað kem ég oft. Svo er hún ein­stak­lega sjarmer­andi á aðvent­unni og þeir sem ég hef leitt inn í jóla­stemn­ing­una þar kunna vel að meta hana.“

Lesa meira