Blogg

Hvert farið þið með okkur næst?

Frá Inga Geirsdóttir
20. nóvember 2023

Nú styttist í að ferðavertíðin á þessu ári fari að klárast hjá okkur og þá notum við tímann vel til að skipuleggja næsta ár og vinna í nýjum ferðum sem verða í boði 2024.

Við erum t.d. nýkomin heim frá Normandy en þar verður sett upp framhaldsferð af Víkingaferðinni (Írland, Wales & England) fyrir sérhóp á næsta ári. Sú ferð er því í fæðingu núna og stefnum við á að setja upp ferð í almenna sölu til Normandy 2025. Nú þegar hafa margir sýnt þessari ferð áhuga og komnir á póstlista.

Fyrir okkur er þetta að verða eins og ættarmót því stór hluti af þeim sem koma í ferðir Skotgöngu hafa komið með okkur marg oft áður í hinar ýmsu ferðir. Síðastliðin ár hafa rútuferðirnar verið að aukast hjá okkur og eins mikið af sérferðum, sem gerir þetta starf okkar svo fjölbreytt og skemmtilegt.

 

Á næsta ári verða t.a.m. 10 rútuferðir hjá okkur, þar af 5 settar upp fyrir sérhópa. Þær ferðir sem verða í almennri sölu eru hinar sívinsælu ferðir – Á slóðir Auðar djúpúðgu með Vilborgu Davíðsdóttur (Skotland, Mull, Iona & Orkneyjar), SV-England, Víkingaferðin (Írland, Wales & England), og nýja ferðin hjá okkur – Í fótspor Jane Austen.  

Fyrir árið 2024 erum við eins að bjóða upp á nýja gönguferð sem verður í Týrol (Austurríki og Ítalía) og eru þeir sem hafa næstum farið með okkur í allar gönguferðirnar okkar á húninum með að komast í þá ferð enda erum við ætíð undir pressu að finna nýja ferð og alltaf er spurt, hvert farið þið með okkur næst?