Blogg

Í fótspor Jane Austen

Frá Inga Geirsdóttir
23. janúar 2024

Þegar degi fer að halla finnst mér tími notalegheitanna detta inn. Þá er góður tími í undirbúning fyrir næsta ár hjá okkur Skotgöngu fólki. Nú sit ég og er að vinna betur í Jane Austen ferðinni sem verður í byrjun maí 2024.

Þetta þykir mér spennandi verkefni en við fórum til Winchester og Bath fyrir 2 vikum síðan í smá undirbúningsvinnu. Winchester borgin sjálf kom mjög á óvart og er einstaklega sjarmerandi borg. Þar heimsóttum við m.a. heimili Austen í þorpinu Chawton og svo Winchester Cathedral en Jane er grafin þar undir gólfinu í dómkirkjunni.

Bath er alltaf jafn yndisleg að heimsækja, enda af mörgun talin ein fallegasta borg Bretlands. Þar fundum við hattabúð þar sem dömunum í ferðinni gefst kostur á að kaupa sér alvöru Jane Austen samkvæmishatt fyrir komandi Afternoon Tea. Eins fórum við í Jane Austen Centre og að sjálfsögðu dressaði maður sig upp í fatnað þar.



Jane Austen var og er á margan hátt enn í hópi mestu skáldkvenna Breta. Þó svo að hún hafi ekki alltaf notið sannmælis þegar fjallað er um bókmenntir verður seint litið framhjá áhrifum hennar og hefur tíminn gengið þar í lið með henni því enn eru bækur hennar mikið lesnar og sögur hennar stöðugt notaðar í kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Verk Jane eru töfrandi og hlý, konur eru söguhetjur og listin að lifa, samskipti og ást er rauði þráðurinn. Í skammdeginu er því fátt betra en að detta inn sagnaheim Jane Austen og láta sig hlakka til dömuferðarinnar til Englands.