Viðtal

Ganga 154 kílómetra til heiðurs Iðunni

Frá Guðrún Selma Sigurjónsdóttir
25. maí 2021

Inga Geirs­dótt­ir, meðeig­andi Skot­göngu, í Skotlandi lagði af stað í 154 kíló­metra göngu á fimmtu­dag­inn ásamt eig­in­manni og dótt­ur. Fjöl­skyld­an geng­ur í minn­ingu syst­ur Ingu, Iðunn­ar Geirs­dótt­ur, sem lést úr brjóstakrabba­meini fyr­ir þrem­ur árum. Með ferðinni safna þau áheit­um til styrkt­ar Göng­um sam­an

„Fyr­ir þrem­ur árum lést yngsta syst­ir mín, Iðunn Geirs­dótt­ir, úr brjóstakrabba­meini, aðeins 47 ára, eft­ir margra ára bar­áttu. Okk­ur fjöl­skyld­una hjá Skot­göngu lang­ar því að leggja okk­ar af mörk­um með því að safna fé til styrkt­ar Göng­um sam­an,“ seg­ir Inga. Iðunn hefði orðið fimm­tug í ár og til merk­is um það ætl­ar fjöl­skyld­an að fara með 50 steina sem þau eru búin að mála og skilja eft­ir á leiðinni.

Inga seg­ir að Göng­um sam­an hafi verið Iðunni mjög kært. Iðunn skipu­lagði göng­ur á Aust­ur­landi og lagði fé­lag­inu lið á ýms­an hátt. Fé­lagið er styrkt­ar­fé­lag sem hef­ur það að mark­miði að styrkja grunn­rann­sókn­ir á brjóstakrabba­meini. „Fé­lagið legg­ur áherslu á mik­il­vægi hreyf­ing­ar bæði til heilsu­efl­ing­ar og til að afla fjár í styrkt­ar­sjóð fé­lags­ins. Við ætl­um því í sam­ræmi við áhersl­ur Göng­um sam­an að hreyfa okk­ur og safna um leið fé fyr­ir fé­lagið í rann­sókn­ar­sjóðinn. Brjóstakrabba­mein er al­gengt í minni ætt og eins er þetta al­geng­asta krabba­mein hjá ís­lensk­um kon­um og þetta hef­ur áhrif á svo marg­ar fjöl­skyld­ur og því er þetta þarft verk­efni að styðja við rann­sókn­ir á brjóstakrabba­meini.

Iðunn var veik lengi en Inga seg­ir að veik­ind­in hafi gert fjöl­skyld­una nán­ari. „Það er alltaf sárt að missa ná­kom­inn ætt­ingja en Iðunn var búin að vera veik í mörg ár og við viss­um hvert stefndi. Að fá þenn­an aðdrag­anda gerði það kannski að verk­um að við urðum enn nán­ari. Fyr­ir mér er mik­il­vægt að tala um Iðunni og við fjöl­skyld­an höf­um öll til­einkað okk­ur það. Þannig höld­um við minn­ingu henn­ar á lofti og það hjálp­ar í sorg­inni að rifja upp sög­ur af þeim látna. Marg­ir eru hrædd­ir við að nefna lát­inn ást­vin á nafn við syrgj­end­ur af ótta við að vekja erfiðar til­finn­ing­ar en þetta er ein­mitt öf­ugt, við vilj­um tala um þau sem eru far­in. Þannig lifa þau áfram með okk­ur.“
Lesa meira