Hvað er málið með kvennaferðir?
Það myndast alveg sérstök stemming þegar konur ferðast saman. Jafnvel í kvennahópum þar sem engar þekkjast innbyrðis í upphafi ferðar. Þetta veit Inga Geirsdóttir hjá Skotgöngu manna best en fyrir 14 árum hóf hún að bjóða upp á kvennaferðir erlendis.
„Upphaflega þegar við stofnuðum Skotgöngu árið 2006 fannst okkur vanta ferðir fyrir konur þar sem mikið var í boði fyrir karlmenn á þeim tíma líkt og golfferðir, fótboltaferðir og veiðiferðir,“ segir Inga spurð að því hvers vegna Skotganga leggi svona mikla áherslu á sérferðir fyrir konur.
Kvennaferðirnar, sem voru í upphafi aðallega gönguferðir í skosku Hálöndunum, fengu að sögn Ingu frábærar viðtökur og ágæti þeirra spurðist út til hins kynsins.
„Við fórum að fá fyrirspurnir frá körlum. Þeir fréttu hvað það var gaman í ferðunum hjá okkur og fóru að athuga hvort við gætum ekki boðið upp á blandaðar ferðir en á þessum tíma var mikil vakning í hreyfiferðum,“ segir Inga. Í framhaldinu fór Skotganga að einbeita sér eingöngu að blönduðum ferðum eða allt til ársins 2014. „Þá fórum við að fá pósta frá konum sem höfðu verið með okkur í kvennaferðum og óskuðu eftir slíkum ferðum á ný. Þá lögðum við land undir fót, fórum til Costa Blanca og fundum þar frábæra gönguleið og ákváðum að bjóða upp á skvísuferð. Nú, við auglýstum ferðina og seldist hún upp á nokkrum dögum. Við sáum að þetta væri eitthvað sem vert væri að halda áfram að bjóða upp á og síðastliðin ár höfum við boðið upp á alls konar ferðir fyrir konur til bæði Costa Blanca og Tenerife. Til dæmis, göngu- og jógaferðir með Sigríði Herdísi Ásgeirsdóttur jógakennara, hannyrðaferðir með Helgu Unnarsdóttur íþróttakennara og leirkerasmið og uppbyggjandi sjálfsræktar- og gönguferðir með Kristínu Lindu Jónsdóttir, sálfræðingi og ritstjóra Húsfreyjunnar.“