Vilborg leiðir fólk um slóðir Auðar djúpúðgu
Rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir er mikill aðdáandi Skotlands og nú í haust hefur hún farið með þrjá hópa af Íslendingum í ferðir um Skotland og Orkneyjar. Hugmyndin að ferðunum kviknaði í kjölfar þess að hún sagði sögu landnámskonunnar Auðar djúpúðgu á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi fyrir fullu húsi í tvo vetur en um hana hefur hún skrifað þrjár bækur.
Ferðirnar eru á vegum Skotgöngu, ferðaskrifstofu hjónanna Ingu Geirsdóttur og Snorra Guðmundssonar, en þau hafa boðið upp á ferðir um Skotland og víðar undanfarin 15 ár.
„Ég kynntist þeim í hópferð til ytri Suðureyja og hafði samband við þau um að skipuleggja ferð. Það varð úr. Við fórum tvær átta daga ferðir árið 2019 en þær voru aldrei auglýstar. Eftir eina færslu á Facebook seldist upp í þessi 98 sæti,“ segir Vilborg í viðtali við mbl.is.
Fyrstu tvær ferðirnar gengu vel og hófu þau Vilborg, Inga og Snorri að skipuleggja þrjár ferðir fyrir árið 2020. Miðarnir í þær seldust fljótt upp sömuleiðis og voru 120 á biðlista en vegna heimsfaraldursins varð að fresta ferðunum.
„Við fórum í allar þrjár ferðirnar núna í september á þessu ári, fengum ljómandi fínt veður og þótt stöku sinnum rigndi lét enginn það á sig fá,“ segir Vilborg en veðurfar í Skotlandi í september er svipað og má búast við í ágúst á Íslandi.
Í ferðinni er flogið til Glasgow á vesturströnd Skotlands, ekið með Loch Lomond og farið út í Suðureyjar og Eyna helgu. Því næst er farið um skosku hálöndin, að nyrsta odda meginlands Bretlands, yfir héruðin í norður frá Inverness en ekki ströndina eins og algengast er.
„Engar aðrar skrifstofur skipuleggja ferðir á þessa staði norður til Suðurlands og Kataness, né heldur til eyjanna.“ Ferðin er ekki gönguferð, heldur er ferðast í rútum og með ferjum, og stoppað oft á leiðinni. Vilborg segir sögu Auðar sem gerist á 9. öld en Snorri segir frá sögu Skotlands á síðari tímum, uppreisnum Jakobíta og átökum á milli skoskra ættarvelda.